Læknamistök

Þeir sem verða fyrir líkamstjóni af völdum vanrækslu eða mistaka heilbrigðisstarfólks kunna að eiga rétt á bótum á grundvelli laga um sjúklingatryggingu burtséð frá því hvort um sé að ræða sök þess aðila sem olli tjóninu. Á þetta bæði við um sjúkrahús og einkastofur. Sjúklingatrygging tekur ekki eingöngu til beins tjóns heldur á sú trygging einnig við um fylgikvilla hvers kyns rannsóknar eða læknismeðferðar sem veldur tjóni sem fellur undir skilgreiningu laga um sjúklingatryggingu. Þá gæti tjónþoli einnig átt rétt á bótum frá Sjúkratryggingum Íslands og einnig tryggingarfélagi viðkomandi heilbrigðisstofnunnar þar sem tjónið átti sér stað. Í mörgum tilvikum þarf að fara í hefðbundin skaðabótamál á grundvelli reglna skaðabótaréttarins. Bótagrundvöllurinn er sakarreglan en með því er átt við bótaskylda stofnast vegna mistaka þess sem veldur tjóninu með saknæmum (ásetningi eða gáleysi) og ólögmætum hætti, enda sé líkamstjónið sennileg afleiðing af hegðun hans.

Tvenns konar bætur koma hér til skoðunar. Annars vegar bætur vegna tímabundinna afleiðinga og hins vegar bætur vegna varanlegra afleiðinga. Í fyrri flokknum er um að ræða bætur vegna tímabundins atvinnutjóns og þjáninga en í þeim síðari bætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, það er að segja þegar svokölluðum stöðugleikatímapunkti hefur verið náð en þá er ekki gert ráð fyrir frekari bata.

Hafðu samband við okkur til að fá frekari upplýsingar um réttarstöðu þína.

Tímabundið atvinnutjón

Tjónþoli á almennt rétt á bótum vegna þess tíma sem hann er frá vinnu. Um er að ræða tekjutap sem tjónþoli verður fyrir frá slysdegi og þar til hann verður vinnufær aftur eða ef ekki er að vænta frekari bata. Hafi vinnuveitandi hins vegar greitt tjónþola full laun í forföllum frá vinnu fellur bótaréttur samkvæmt þessum bótalið niður. Þá ber að leggja heimilisstörf að jöfnu við störf utan heimilis og kann því sá sem er heimavinnandi einnig að eiga rétt á bótum samkvæmt þessum bótalið.

Þjáningabætur

Almennt er um að ræða staðlaðar bætur fyrir það tímabil sem tjónþoli telst vera óvinnufær/veikur vegna áverka slyss. Tjónþoli á hér rétt á tiltekinni fjárhæð á dag eftir því hvort hann er rúmfastur eða ekki. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær. Dæmi um slíkt tilvik er það að líkamstjón valdi tímabundnum líkamlegum óþægindum eða trufli eðlilega líkamsstarfsemi án þess að sagt verði að tjónþoli sé veikur.

Varanlegur miski

Bætur fyrir varanlegan miska eru bætur fyrir varanlegt ófjárhagslegt tjón. Þetta tjón getur m.a. falist í þjáningum, hneisu, óþægindum, lýti og óprýði. Bætur vegna varanlegs miska fara eftir því hversu miklir áverkar tjónþola eru út frá læknisfræðilegu sjónarmiði svo og þeim erfiðleikum sem þeir valda í lífi tjónþola, en oft á tíðum getur líkamstjón haft áhrif á tekjuöflunarfærni tjónþola til framtíðar.

Varanleg örorka

Tekjuöflunarfærni tjónþola vegna líkamstjóns kann að minnka vegna þeirra áverka sem hann verður fyrir vegna slyss. Sem dæmi þá gæti tjónþoli þurft að minnka við sig í vinnu eða jafnvel hætta vinnu. Hugtakið örorka nær yfir þá varanlegu skerðingu sem verður á getu tjónþola til að afla tekna í framtíðinni. Útreikningur bóta í slíkum tilvikum fer eftir aldri tjónþola og þeirra tekna sem hann hafði síðastliðinn þrjú ár fyrir slys og miðast sá útreikningur við ákveðin lágmarkslaun.

Útlagður kostnaður

Með útlögðum kostnaði er átt við þann kostnað tjónþola sem hann verður fyrir vegna þeirrar aðstoðar sem hann þarf að sækja sér í kjölfar slyss. Hér getur verið um að ræða útgjöld vegna læknisheimsókna, endurhæfingar, lyfja og annars fjártjóns. Undir annað fjártjón fellur sem dæmi kostnaður vegna stoðtækja og leigubifreiða. Mikilvægt er að geyma frumrit greiðslukvittana vegna þessara útgjalda svo unnt sé að krefja viðkomandi tryggingarfélag eða tjónvald um endurgreiðslu á kostnaðinum.

FERILL MÁLS

Kynntu þér ferlið

SKREF 1

Tilkynningar

Mikilvægt er að bregðast fljótt við og tryggja sönnun atvika strax í kjölfar slyss þar sem slíkt getur auðveldað okkur að gæta hagsmuna þinna.

SKREF 2

Gagna- og upplýsingaöflun

Í framhaldinu er gott að hafa samband við okkur til að koma málunum í réttan farveg. Þá getum við strax veitt þér ráðgjöf um næstu skref og farið af stað með gagna- og upplýsingaöflun.

SKREF 3

Mat á afleiðingum

Bótamál getur tekið langan tíma og oftast er það þannig að a.m.k. eitt ár líði frá slysi þar til hægt er að meta afleiðingar þess fyrir tjónþola.

SKREF 4

Bótauppgjör

Oftast næst samkomulag um uppgjör bóta og þá einkum þegar tryggingarfélag er bótaskylt. Komi til ágreinings um bótaskyldu eða fjárhæðar bóta sjáum við um að leita atbeina viðeigandi úrskurðarnefnda og/eða dómastóla.