Spurningar og svör

Hvað tekur langan tíma að fá bætur greiddar?

Algengt er að bætur séu greiddar þegar 2-3 ár eru liðin frá slysi. Biðin gæti orðið lengri ef þú dregur að leita þér lögmannsaðstoðar og einnig gæti sönnun orðið erfiðari.

Hvenær er of seint að sækja bætur?

Bætur er hægt að sækja í nokkur ár eftir slys en við ráðleggjum fólki að leita aðstoðar lögmanns sem fyrst í kjölfar slyss. Hin almenna regla hvað varðar umferðarslys er að bótaréttur fyrnist á fjórum árum og ekki er hægt að sækja bætur ef 10 ár eru liðin frá slysinu. Ef um er að ræða frítímaslys verður endanlegt örorkumat að liggja fyrir innan þriggja ára frá því að slys verður.

Hvaða upplýsingar þarf ég að hafa fyrir fyrsta fund?

Nauðsynlegt er að hafa helstu upplýsingar um slysið, hvar og hvenær það átti sér stað og hvenær var leitað til læknis í kjölfar slyss.

Hvað er örorkumat og hvernig fer það fram?

Örorkumat er mat á afleiðingum slyss milli tjónþola og þess tryggingarfélags sem á í hlut. Það mat er annað en mat á örorku hjá Tryggingarstofnun. Matið getur verið í höndum örorkunefndar sem starfar samkvæmt skaðabótalögum en í flestum tilvikum eru það þó lögmaður tjónþola og viðkomandi tryggingarfélag sem koma sér saman um tvo menn sem framkvæma matið, þ.e. tvo lækna eða lækni og lögmann. Þá er hægt að dómkveðja matsmenn til þess að meta afleiðingar slyss og hefur þeirra mat meira vægi en það mat sem lögmaður tjónþola og tryggingarfélagið hafa komið sér saman um að afla og mat örorkunefndar.

Á ég rétt á bótum ef ég verð fyrir tjóni vegna óhappatilviks?

Tjón sem verður við „óhappatilvik“ er ekki bótaskylt á grundvelli sakarreglunnar. Til þess að sakarreglunni verði beitt þarf tjóni að vera valdið a.m.k. af gáleysi. Undir óhappatilvik fellur mikið safn tilvika sem ómögulegt er að skilgreina með jákvæðum hætti. Tjónþoli á til dæmis ekki rétt til bóta ef hann stígur á ávöxt í matvöruverslun og fellur til jarðar, enda ólíklegt að rekja megi slíkt til saknæmrar vanrækslu starfsmanna. Það er tjónþoli sem hefur sönnunarbyrði fyrir því að háttsemin sem olli tjóni hafi verið saknæm og oft er sýknað með vísan til þess að þeirri sönnunarbyrði sé ekki fullnægt.